1 . Tíðni  

Audio Block
Double-click here to upload or link to a .mp3. Learn more

Ég er þjónn almennings og get því ekki tjáð mig um hvað sem er. Get ekki skrifað um pólitík. En hér eru 400 orð um eitthvað annað en pólitík.

„Sæðisfruma gærdagsins er lík morgundagsins“. Þessi orð eru höfð eftir Marcusi Aurelíusi, fyrrum keisara Rómaveldis og heimspekingi. Þau minna á hversu ævi okkar mannanna er stutt í heildarsamhengi þróunarsögu tegundarinnar. Það að vera einstaklingur í sam-félagi manna er verkefnið og tíminn til þess að ná „árangri“ í því verkefni er takmarkaður.

Maðurinn er gleyminn. Hann vill og hann langar. Honum finnst og hann heldur. En í raun getur hann aldrei átt neitt né verið viss um neitt nema e.t.v. um það að sá rafboðefnaflutningur og tíðni sem heldur hjarta hans og höfði kviku í sál hans og vitund mun vaxa, dofna og að lokum enda.

Við höfum í gegnum aldirnar átt með okkur samfélög um tilvistina. Smíðað ramma – siðferðisramma, lagaramma – strúktúrerað samfélögin og skilyrt hugsun og hegðun í gegnum tól og tæki eins og trúar-brögð, vísindi og stjórnspeki – og komist vel af. Eða hvað? Líf okkur hefur lengst í árum og samfélög okkar tekið miklum framförum.

En í hverju eru „framfarirnar“ í raun fólgnar? Við eigum nú rafmagnaða og jarðefnaknúna tilveru umvafða steypu, járni, gleri og plasti, jú og holdi – því samskipti eiga sér víst enn stað í gegnum hold. Við eigum möguleika á að komast á milli staða og samskiptaleiðum sem fyrir nokkrum öldum hefðu þótt óhugsandi.

Tilveran er „spanaðri“ en nokkru sinni fyrr – tíðni okkar lituð af háspenntu rafmagni, skjálífi, tjáningu, skoðunum, nokkuð stöðugu viðbragði við áreiti og að því mér virðist almennum skorti á tengingu við innsæi. En þrátt fyrir „framfarir“ okkar þá leitum við nú í enn ríkari mæli að upphafstíðninni – tíðni náttúrunnar. Tíðni sem við erum partur af þó oft viljum við hefja okkur yfir hana.

Við erum spendýr í grímubúningum. Grímudansleikurinn innrammaður af ofangreindum manngerðu römmunum en gefið líf með mennsku okkar og menningu. Ég vann eitt sinn með manni í vegavinnu sem sagði mér einn sumardaginn er ég var unglingur undir sólinni að það væru í raun einungis fjórir þættir sem skiptu máli í lífinu. Maðurinn var glaðvær í tíðni sinni þegar hann sagði mér þar sem hann stóð á hlýrabolnum í kaffiskúrnum að það sem skipti máli í lífinu væri (í þessari röð) að: Drekka, reykja, ríða og hanga. Að þessu sögðu stökk hann upp og greip með höndunum um einn þverbitann í lofti skúrsins og „hékk“. Af hverju að vera að flækja þessa stuttu ferð frá sæðisfrumu að líki um of?

 

2. Skipti

(Stílfærð sagan er ein af dæmisögum Aesops og ná rætur hennar aftur til sjöttu aldar fyrir Krist).

Það var dag einn að sólin og vindurinn tókust á um það hvort þeirra væri sterkara. Vindurinn sagðist hafa ýtt undir ófá snjóflóðin, rifið upp ótal tré og sökkt milljónum skipa. Sólin horfði á hann og sagði: „Það þarf ekki endilega að þýða að þú sért sterkari“. Vindurinn setti í brýrnar og sagði: „Ég get hulið þig skýjum þannig að þú fáir enga athygli“. Sólin brosti og svaraði af rósemd: „Ég held engu að síður að ég sé sterkari en þú“. Vindurinn rumdi: „Af hverju reynum við ekki með okkur?“ um leið og hann snerist í hringi leitandi að einhverju til að reyna afl sitt á. 

„Eigum við að sjá hvort okkur getur eyðilagt fleiri mannabústaði?“ sagði vindurinn. „Nei, við skulum hafa þetta einfaldara“ sagði sólin. „Sjáðu konuna í fallegu kápunni sem gengur þarna áhyggjulítil niður veginn?“ „Já, eigum við að sjá hvort okkar getur fyrr þvingað hana af veginum?“ spurði vindurinn sólina. „Nei, það mun valda henni sársauka,“ svaraði sólin. „Við skulum frekar sjá hvort okkur fær náð henni úr kápunni.“  

Vindurinn hringsnerist af tilhlökkun um leið og loftvogin féll. Hann hentist um loftið og hóf að þenja brjóst sitt. Hann smalaði saman dökkum skýjum og ýfði þau þannig að eldstrengir stóðu úr þeim og stefndu að jörðu. Um leið byrjaði hann að tæma brjóst sitt. Þá ýfðust drafnir á hafi og strítt var óstöndugum á storð. Konan horfði til himins og sveipaði sig kápunni og hélt fast um boðungana. Kári tæmdi nú brjóst sitt en það var sama hvað vogin féll og vindstiginn mögnuðust, kápunni varð ekki haggað af öxlum konunnar. Stormurinn umbreyttist nú í andvara, þrýstingur loftsins jókst að nýju og stilla komst á um leið. Það birti til.

„Ég gefst upp – ég næ henni ekki úr kápunni,“ sagði vindurinn um leið og hann klifraði upp á eitt fárra bjartra skýja og náði andanum. „Nú er komið að mér að reyna,“ sagði sólin um leið og hún silaðist geispandi fram undan hverfandi skýjunum og teygði úr hlýjum geislum sínum. Á fagurmótuðu enni konunnar sem gekk áfram veginn perlaði nú sviti. Hún leit til sólar og undraðist veðrabirgðin um leið og hún hneppti frá sér og fór úr kápunni. 

„Skipti“ eru víða. Sam-, við- og um- eru allt ágætis forskeyti við „skipti“. Það að eiga samskipti er verðugt verkefni. Ég tel það til allra heilla að hafa sólina sem fyrirmynd í þeim „skiptum“.

 

3. Tóm

Ég heyrði sögu af manni sem eitt sinn langaði að hafa frumkvæði að því að minnast fallins samferðafélaga með því að reisa honum minnisvarða. Honum fannst tilhlýðilegt að minnisvarðinn yrði staðsettur á fæðingar- og uppeldisslóðum þess sem fallinn var frá. Varðinn var reistur af myndarskap. Hár og stílhreinn steinn sem fögur orð prýddu. Orðin endurómuðu manngildi og persónu þess sem minnst var. Frumkvöðullinn ákvað einnig að láta fylgja orðunum eina setningu neðst á steininum. Setning sú opinberaði frumkvæði frumkvöðulsins.

Hvers vegna „þurfti“ maðurinn að láta framtíðina vita að það var hann sem átti frumkvæði af minnisvarðanum? Var ekki minnisvarðinn þar með orðinn minnisvarði um tvær manneskjur?

Það virðist vera þannig með okkur mennina að við þurfum öll á ytri viðurkenningu að halda. Viðurkenningu á tilvist okkar. Spegilmynd frá samfélaginu sem fullvissar okkur um eigin tilveru og ágæti. Þessi þörf virðist þó mismikil og fer sjálfsagt eftir því hvernig sjálfsmynd okkar er dregin. Hvaða ramma og liti við höfum fengið í arf og hvernig penslinum var beitt í upphafi. Að hve miklu leyti tómið sem er samtvinnað hinni flöktandi innri fullvissu er fyllt. Hversu mikið tóm við berum í sjálfsmyndinni og hvað djúpt er á því.

Uppeldi okkar og samtími gefur okkur leiðbeiningar um hvernig tómið sé best „fyllt“. Markaðurinn eggjar okkur áfram með skilaboðum að okkur líði betur og innri fullvissu um eigið ágæti sé best „fullnægt“ með ytra efni. Trú okkar og skynsemi segir á hinn bóginn að innri fullvissa og þar með hamingja sé tryggð með því að fylla tómið innan frá. Að í tóminu grói kærleikur sem rétt nærður fylli holuna okkar innan frá og að kærleikurinn sé óháður hinu ytra efni. 

Öll erum við breysk og búum við mismikla innri fullvissu og tóm. Við getum ályktað að allt líf okkar einkennist í grunninn að því að við viljum hámarka vellíðan um leið við viljum forðast vanlíðan. Við getum velt því fyrir okkur að hve miklu leyti við ráðum pensilstrokunum og hvort við getum eitthvað átt við þær eftir að þær hafa verið dregnar. Hvort við getum orðið samverkamenn að eigin sjálfsmynd.

Getum við einbeitt okkur að þvi að fylla tómið innan frá og þannig aukið innri fullvissu. Vera viss um að við séum nóg eins og við erum án of mikillar ytri viðurkenningar? 

Hamingjugaldurinn ku vera sá
að holuna fylla skal innan frá.
Einbeita sinni að einföldum dyggðum,
elska og hvílast í fámennum byggðum. (hu)

 

4. Galdur

Ég er á Ströndum. Hér er kyrrð. Kyrrð umhverfis sem hefur áhrif á innri mann. Með tímanum samstillist ytri heimur við hinn innri. Skynjun verður skarpari, hugsanir og jafnvel tilfinningar koma á löglegum hraða og vitundinni gefst betra tóm til að ákvarða hvað gera skuli við þær, ef þá nokkuð. Hvort þær eiga að verða að orðum eða ekki. Hvort orðin skuli sögð eða hvort þau fái að líða hjá líkt og sjófuglarnir sem fljúga hér fyrir utan skjáinn. Tilfinningarnar eru aftur á móti galdur. Þær magnast upp í þessu umhverfi. Þegar þær fá tækifæri til að vera og blómstra. 

Sagan segir að hér sé kraftur. Fjölkyngi. Á Galdrasetrinu á Hólmavík er sögur af krafti. Sögur af ljósi í ímyndaðri dimmu. Sögur af viðleitni og viðbrögðum þessarar þjóðar við eigin hugsunum og tilfinningum. Sögur af vanmætti í mætti og manngerðum kerfum sem telja sig höndla „sannleikann“ eins og hver kynslóð túlkar hann með því umboði sem við gefum honum. Þrátt fyrir „dimmuna“ sem óneitanlega umlykur sögurnar þá upplifði ég fallegar tilfinningar á setrinu. Lærði meira um Jón Guðmundsson lærða og aðra „ljósbera“ sem báru ljós í dimmunni. Manneskjur sem drógu stafi. Mótuðu orð og mögnuðu kenndir sem settu innri dimmu í samhengi og siguðu henni út.

Margt má læra af stöfum og orðum. Hvernig við túlkum birtingarform innri dimmunnar ogbjargráð okkar þjóðar við henni. Hvernig við leitum og leitumst við að skilja. Finnum reipi, haldreipi sem við erum ásátt um að spegli sameignleg gildi. Eitthvað sem við getum í grunninn verið sammála um að auðveldar tilvistina. Trú – sama hvaða brögð standa að baki hennar. Trú á birtuna. Innri birtuna. 

Birtan grær í dimmunni. Í myrkrinu. Þrátt fyrir að umhverfi og sál okkar eigi nú að heita „upplýst“ þá er dimman enn til og út frá tvíhyggjunni má segja að hún verði alltaf nauðsynleg. Verði alltaf að vera til svo ljósið fái þrifist.

Innri upplýsing er dásamleg. Ljósið kviknar að innan og lýsir út um glyrnur okkar skepnanna. Kærleikurinn. Ljósið er kveikt. Eldurinn logar. Mögulegt er að hvetja hann með ytri efnum en fegurstur er hann sjálfsprottinn og þá þurfum við enga stafi eða orð. Hvorki af nútíma lyfseðlum né galdrablöðum. Hann einfaldlega logar í tóminu fyrir tilstill andans.

Í birtu galdursins bjarma þú sérð
sem brennandi í hjartanu situr.
Þar lýsandi engill ljóss er á ferð
sem lifandi kærleik þér flytur. (hu)

 

5. Sam

Forskeytið „sam“ er svo mikilvægt. Orð eins og sam-band, sam-staða, sam-ráð, sam-söngur, sam-hæfing, sam-fagna, sam-ræður, sam-lagast, sam-hljóða og sam-vinna eiga öll forskeytinu „sam“ jákvæðni sína og samhljóm að þakka. Jafnvel sam-ræði getur stuðlað að einhverju fallegu. Sennilega er sam-særi eitt fárra „sam“ orða sem er erfitt að ljá jákvæða merkingu. Forskeytið var mikilvægt þegar allt „hrundi“. Þá sátum við öll sam-an í súpunni. Þegar umræðan um siðrof stóð sem hæst fórum við í fjallgöngur með sam-eiginlegum vinum og mundum eftir því að við værum nú einu sinni ein sam-einuð þjóð. Sam-staðan var okkar. „Ég-ið“ dalaði í sálum okkar og „við-ið“ vann á. Við stóðum saman.

Nú er sem „ég-ið“ sé að vinna á aftur, á kostnað „sam“ og „við-sins“. Enda gengur þessi tilvist okkar öll í bylgjum og ekkert óeðlilegt við það. Það er hins vegar tíðni og taktur þessara sveiflna hér á Íslandi sem veldur mér hugarangri. Af hverju sveiflumst við svona ört? Það er náttúrlega fámennið, hugsa ég þar sem ég sit á Landsbókasafninu saman með öðrum. En það er auðvitað flóknara orsakasamband. Þrívítt og fjöldi orsakaþráða sem leika hlutverk. Svo sem þráður vanmáttarins. Þessarar þjóðar forni fjandi. Hann liggur sem þögull ormur undir þjóðinni og virðist stöðugt telja henni trú um að hún sé ekki nóg. Ekki nógu góð. Þurfi viðurkenningu að utan til að vera viss. 

Ormurinn á sér m.a. birtingarmynd í þótta og minnimáttarkennd sem litar sjálfstraust okkar. Við sem fórum frá öðrum löndum og komum hingað. Stóðum saman í óeiningu okkar. Misstum valdið til þeirra norsku og dönsku. Áttum sam-eiginlega óvini. Náðum valdinu aftur að lokum. Tókum upp þjónustukerfi að utan og búum við það. En rofið og hrunið eggjaði okkur til endurskoðunar á grunnstoðum sam-félags okkar. En ormurinn? Hver á að endurskoða hann, nú þegar „ég-ið“ sem nærir hann virðist vera byrjað að vaxa aftur?

„Við“ – hver erum við? Það er ekki til „við-símar“ (we-phone). Aðeins „I-phone“ (ég-símar). Réttur einstaklingsins er á uppleið í öru sveiflunni okkar. Sam-ábyrgð hans, já, hún er eitthvað sem virðist of oft vera í öðru sæti, eiga undir högg að sækja. Ég hef rétt. Ég hef rétt í þessu sam-félagi. Ég má, ég vil, mig langar, mér finnst og ég held. En í raun veit ég ekki neitt. Get ekki verið viss um neitt og er háður sam-inu okkar. Takk fyrir okkur.

Megi Íslands vættir vanda
viðmót sitt til okkar handa.
Guð, ég bið að geyma, ei granda
gæfuinntak sam-an-band-a. (hu).

 

6. Vatn

Elva Gísladóttir, næringarfræðingur hjá Embætti landlæknis, skrifar árið 2014 leiðbeiningar til almennings með yfirskriftinni: „Vatn er besti svaladrykkurinn“. Þar segir m.a.: „Við búum við þau forréttindi hér á landi að geta drukkið vatn beint úr krananum og bragðgæðin eru mikil. Í vatni er enginn viðbættur sykur, engin sætuefni, engin sítrónusýra (E330), engin rotvarnarefni og engin bragðefni. [...] Stærstur hluti mannslíkamans er vatn og er nægilegt magn vökva nauðsynlegt fyrir eðlilega líkamsstarfsemi.”

Við erum vatn. Vatnið er formlaust en getur birst okkur í ólíkum myndum. Vatnið er alltumlykjandi og allt um kring. Vatnið er undirstaða framleiðslu okkar á orku sem við með hugviti umbreytum í ljós og hita, nútíma eld. Vatnið getur einnig sefað eld, nært jörð og litað loft. Vatnið er að mínu viti jafn mikilvægasta náttúruaflið. 

Vatnið er eins og kærleikurinn. Það er umburðarlynt, leitar ekki sjálfs sín og finnur sér alltaf farveg. Vatnið er svo margt fyrir okkur. Það er misjafnt hvernig við mennirnir metum það. Allt háð birtingarmynd þess og aðstæðum. Vatn er þyrstum líf. Öldur geta ógnað lífi og jafnvel tekið það. Sjórinn, hinn vanmáttugi, altumvefjandi herra sem er þó í raun þjónn himintunglanna, er vatn. Árnar sem eru uppfullar af vatni geta verið viðsjárverðar og stöðuvötnin á fallegum sumardegi, stillt sem sálarspegill, minna okkur á hvernig vitund okkar getur verið; djúp og stillt eins og vatnið.

Við Íslendingar metum heitt jarðvatnið mikils. Það nærir líf okkar. Sundlaugarnar eru athvarf okkar. Þar hreyfum við okkur. Leiðum innri orku okkar í vatnið sem tekur við henni og stillir alla okkar vitund. Að loknum góðum sundspretti, setjumst við í heitan pott og látum líða úr okkur. Háræðarnar þenjast út og vellíðan og höfgi færist yfir meðvitund okkar. Nú er móðins að skella sér í kalt vatn í sundlaugunum og stunda jafnvel víxlböð. Að umvefja sig heitu og köldu vatni til skiptis. Menn sem reynt hafa eru sammála um að slíkt hafi góð áhrif á lundarfar, „herði“ líkamann og geti styrkt ónæmiskerfið. 

Svo er það mannsvatnið, tárin. Eitt birtingarforma tilfinninga okkar. „Rúðupiss sálarinnar“, eins og Ragnar Helgi Ólafsson skáld kemst að orði í einu ljóða sinna í verðlaunuðu ljóðabókinni: Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum. 

En vatnið þarf ekki að finna sig, það bara er og verður. Vatnið er forréttindi. Vatnið er forsenda.

 

Mynd af vatni

Vatnið  breiðir vitund kalda,
virkjar málm og magnar raf.
Hvetur líf úr faldi fjalla,
færir straum um hauð  og haf.
Í  borg og sveit ljær vatnið  varma,
veitir unað,  elur bjarma, 
lýsir tár á  steinum hvarma.  (hu)